kem aftur til að hugsa betur, 2025. Olía og ljóð á fyrrum vegg, 93x120 cm
Sækja heim
Gletta Art Space, Borgarfjörður eystri - 12.07.25-07.08.25 (yfirstandandi)
Síða í vinnslu
Ég geng um Álfaborgina í meira en klukkutíma, kannski tvo, áður en ég finn hvaða partur það er sem vill verða málverk í dag. Ég þarf oft að setjast eða krjúpa til að horfa betur, ég þarf að sjá einstaklingana, ekki heildina, þarf að koma alveg upp að þeim. Þarf að sjá ekki bara gróðurbreiðu heldur hvert blóm og lauf og strá. Sjá að mosinn er ekki bara grár heldur margslunginn, blár, gulgrænn, dökkur í rótina. Sjá appelsínugulu blettina inni í gullmurublómi. Fluguna sem skríður inn í bláklukku. Kaffibolla í eldhúskróki. Biðukollu sem sleppir fræjum sínum einu af öðru. Hönd sem vinkar mér innan úr dráttarvél. Fíflablöð gegnumlýst af sól.
Að sækja heim er að vera gestkomandi en finna svo óvænt að maður tilheyrir. Að sækja heim er að spyrja móana, urðirnar og lággróðurinn hvort þau vilji verða málverk í dag. Með litum og orðum og langdvölum: sækja heim eftir heim eftir heim.
Sækja heim er þriðja “Sækja heim" er þriðja sýningin mín á þremur árum í Glettu, Borgarfirði eystri, þar sem ég sýni verk sem ég mála á staðnum í aðdraganda opnunar. Gletta er listamannsrekið rými sem Andri Björgvinsson heldur utan um og fékk hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2025.
Ég kom fyrst á Borgarfjörð eystri árið 2011 eftir að hafa af tilviljun fengið starf í fiskverkuninni og hef allar götur síðan verið tíður gestur á Borgarfirði. Fyrir utan þessar þrjár sýningar hef ég líka gefið út teiknuðu myndabókina Onyfir um Borgarfjörð og staðið ásamt Rán Flygenring fyrir lundaveldi í nafni Nýlundabúðarinnar í Borgarfjarðarhöfn.
Hvirfill til höku, 2025 - olía og ljóð á masónít, 40x30 cm